UNESCO
UNESCO

Heimsminjanefnd

Heimsminjanefnd

Heimsminjanefnd Íslands (á ensku: The Icelandic World Heritage Committee) var skipuð með bréfi frá mennta- og menningarmálaráðherra dags. 27. ágúst 2009. Nefndin leysir af hólmi heimsminjanefndir sem störfuðu árin 2007-2009 og 2005-2007, og samráðshóp um eftirfylgni samnings UNESCO frá 1972 um menningar- og náttúruarfleifð heimsins 2000-2005.

Hlutverk heimsminjanefndarinnar er að vinna að eftirfylgni við heimsminjasamninginn fyrir hönd ríkistjórnarinnar og mennta- og menningarmálaráðherra sem ber ábyrgð á samningnum. Meðal þess sem nefndin gerir er að undirbúa tilnefningar íslenskra staða á heimsminjaskrána og útbúa yfirlitsskrá (á ensku: tentative list)  Íslands sem afhentur er skrifstofu heimsminjanefndarinnar í París.

Starfandi heimsminjanefnd er skipuð fulltrúum þjóðminjavörslu og náttúruverndar og fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Þjóðminjavörður fer með formennsku í heimsminjanefndinni, og mennta- og menningarmálaráðuneyti veitir starfsaðstöðu. Á fundi nefndarinnar eru boðaðir þeir aðilar, sem við á hverju sinni. Þess má geta að hið nána samstarf aðila sem sinna varðveislu menningararfs annars vegar og varðveislu náttúruarfs hins vegar við eftirfylgni heimsminjasamningsins  hefur verið nokkuð einstætt fyrir Ísland. Það kom í ljós, þegar unnið var að áfangaskýrslu (Periodic Reporting) til UNESCO og er þetta helsti styrkur okkar í þessu starfi.

 

Síðast uppfært (Föstudagur, 25. febrúar 2011 13:59)