UNESCO
UNESCO

Heimsminjar

Frá árinu 1972 hefur Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, unnið með ríkjum víða um heim að því að bera kennsl á heimsminjar og tryggja varðveislu þeirra fyrir komandi kynslóðir. Staðir sem eru jafn ólíkir og fjölbreytilegir og óbyggðirnar í Serengeti í Austur-Afríku, pýramídarnir í Egyptalandi, kóralrifið mikla í Ástralíu og barokkdómkirkjurnar í Rómönsku Ameríku eru heimsminjar. Um 960 menningar- og náttúruminjastaðir og blandaðir minjastaðir eru nú á heimsminjaskránni. Ljóminn sem stafar af þessum minjum auðgar líf okkar og þær eru til marks um margbreytileika jarðarinnar og þeirra sem þar búa. Við eigum þær saman, varðveitum þær og virðum og það væri óbætanlegt tjón fyrir mannkynið ef þær glötuðust.

Heimsminjarnar eru sameiginleg arfleifð okkar sem við verðum að standa vörð um, hvort sem það eru menningarminjar, náttúruminjar eða blandaðar minjar. Menningarminjastaðirnir skipta hundruðum og verða sífellt fleiri. Þeir gera líf okkar auðugra, innihaldsríkara og fegurra og umfram allt varðveita menningu okkar til komandi kynslóða.

Heimsminjanefnd UNESCO

Alþjóðlega heimsminjanefndin (The World Heritage Committee) er kosin til fjögurra ára á tveggja ára fresti, helmingur fulltrúa í senn. Hennar helstu hlutverk eru:

Að bera ábyrgð á framfylgni og þróun samningsins

Að taka við yfirlitsskrám

Að ákveða hvaða staðir fara á heimsminjaskrána

Að ákveða hvaða staðir fara á listann yfir heimsminjar í hættu

Að ákveða styrki úr heimsminjasjóðnum

Að aðstoða við verndun heimsminja með því að bjóða fram tækniaðstoð og þjálfun

Að vekja fólk til vitundar um vernd menningar- og náttúruminja

Að hvetja til alþjóðlegrar samvinnu um varðveislu menningar- og náttúruminja

 

Nánar...

 

Allsherjarþing

Á tveggja ára fresti þinga fulltrúar allra landa sem hafa undirritað Samninginn um vernun menningar- og náttúruminjar heimsins (Convention for the Protection of the World Cultural and Natural Heritage).

Helsta hlutverk þingsins er að taka ákvarðanir varðandi starfsemina, fara yfir stöðu heimsminjasjóðsins, ákveða greiðslu ríkja í sjóðinn og kjósa til fjögurra ára helming fulltrúa í alþjóðlegu heimsminjanefndina.

 

 

Heimsminjaskráin

Á heimsminjaskrá eru nú, 962 staðir sem staðsettir eru í 157 löndum. Þar af eru:

745 Menningarminjar (C)

188 Náttúruminjar (N)

29 Blandaðar minjar (M)

 

20 - 30 staðir bætast við listann á hverju ári en takmörk eru á því hversu marga staði heimsminjanefndin fjallar um í hvert sinn vegna þess tíma sem það tekur.

 

Fyrstu minjarnar voru samþykktar inn á heimsminjaskrána árið 1978. Meðal þeirra voru norrænu minjarnar í L´Anse aux Meadows í Canada og Galapagoseyjar. Ári síðar voru fyrstu minjarnar á Norðurlöndum, Urnes stafkirkjan og Bryggjan í Bergen í Noregi samþykktar sem heimsminjar.

Nánar...

 

Umsóknarferli

Til að koma stað á heimsminjaskrá UNESCO þarf að fara í gegnum tvíþætt umsóknarferli. Samkvæmt 11. gr. samningsins þarf fyrst að skila inn yfirlitsskrá yfir þá staði sem viðkomandi aðildarríki telur til mikilvægra menningar- og náttúruarfleifða í sínu landi og að því loknu er sótt um að staðir verði færðir inn á heimsminjaskrána. Yfirlitsskráin þarf ekki að vera tæmandi en þar ber að nefna dæmi um staði sem til álita kemur af hálfu aðildarríkis að tilnefna á heimsminjaskrá á næstu fimm til tíu árum. Yfirlitsskráin er á engan hátt bindandi, heldur stefnumótandi innanlands með tilliti til verndunar, kynningarstarfs og ferðaþjónustu. Tilgangurinn er að gera Heimsminjanefnd UNESCO (World Heritage Committee) kleift að meta á breiðum grunni alþjóðlegt gildi eða vægi þeirra staða sem tilnefndir eru. Yfirlitsskráin þarf að hljóta samþykki ríkisstjórnar viðkomandi lands til að verða tekin gild.

Útbúa þarf formlega umsókn til heimsminjanefndar UNESCO um að staðir verði teknir inn á heimsminjaskrá. Umsóknin þarf að vera mjög ítarleg og hún er kostnaðarsöm því henni þurfa að fylgja nákvæmar náttúrulýsingar, rökstuðningur fyrir vægi staðanna í menningarlegum eða náttúrufarslegum skilningi, greinargerð um réttarstöðu, ný landabréf, ljósmyndir og margt fleira. Umsóknum þarf að skila fyrir 1. febrúar ár hvert og heimsminjanefnd UNESCO tekur ákvörðun einu og hálfu ári síðar. Ákvörðun nefndarinnar getur verið fjórþætt; umsókn samþykkt (inscription), umsókn vísað til baka með ósk um frekari upplýsingar (referred), umsókn vísað frá því hana þarf að vinna betur (deferred) og umsókn hafnað (not inscribed).

Nánar...

 

Heimsminjasamningur

Samningurinn um verndun menningar- og náttúruminja heimsins (á ensku: Convention for the Protection of the World Cultural and Natural Heritage) er alþjóðlegt samkomulag sem gert var á þingi UNESCO árið 1972. Það grundvallast á þeirri forsendu að ákveðnir staðir á jörðinni hafi sérstakt alþjóðlegt gildi og eigi sem slíkir að tilheyra sameiginlegri arfleifð mannkynsins. Þjóðirnar eða aðildarríkin sem standa að samningnum hafa sameinast um það verkefni að bera kennsl á og varðveita merkilegustu náttúru- og menningarminjar í heiminum. Aðildarríkin sem standa að samningnum virða að fullu fullveldi þjóða og forðast að skerða eignarrétt manna sem kveðið er á um í löggjöf viðkomandi þjóðar, en líta svo á að alþjóðasamfélaginu í heild beri skylda til að vernda heimsminjar. Í mars 2012 höfðu 189 af 193 ríkjum Sameinuðu þjóðanna staðfest heimsminjasamninginn.

Nánar...