UNESCO
UNESCO

Frettir

Alþjóðleg ráðstefna um Surtsey

 

Alþjóðleg vísindaráðstefna í Reykjavík 12.-15. ágúst 2013

Surtseyjarfélagið ásamt fleirum hefur ákveðið að standa fyrir alþjóðlegri vísindaráðstefnu í tilefni þess að liðin eru 50 ár frá upphafi Surtseyjargoss. Ráðstefnan verður haldin í Reykjavík 12.-15. ágúst 2013 og m.a. verður boðið upp á dagsferð til Vestmannaeyja. Sjá nánari upplýsingar á www.surtsey.is.

 

Síðast uppfært (Sunnudagur, 24. febrúar 2013 21:59)

 

Surtsey á frímerki Sameinuðu þjóðanna

5. maí 2011 gaf Póstþjónusta Sameinuðu þjóðanna út ný frímerki með myndum af sex stöðum á Norðurlöndum sem eru á heimsminjaskrá UNESCO. Þeir staðir sem urðu fyrir valinu eru Surtsey á Íslandi, Krónborgarhöll í Danmörku, Stafkirkjan í Urnes í Noregi, Drottingarhólmahöll í Svíþjóð, Sveaborg-virkið í Helsinki og Struve landmælingarboginn sem liggur frá Hammerfest í Noregi til Svarta hafsins. Verður þetta að teljast mikill heiður og er góð kynning á Surtsey.

Áhugasamir geta skoðað öll frímerkin hér á heimasíðu Póstþjónustu Sameinuðu þjóðanna.

Síðast uppfært (Fimmtudagur, 12. maí 2011 10:54)

 

Opnun íslenskrar heimasíðu um heimsminjar

Heimasíða heimsminjanefndar Íslands

Heimsminjanefnd Íslands hefur opnað heimasíðu um heimsminjasamning UNESCO og framkvæmd hans hér á landi. Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra opnuðu síðuna formlega í gær.

Heimsminjasamningurinn miðar að því að vernda bæði menningarminjar og náttúruminjar sem eru einstakar í heiminum. Á heimasíðunni má finna fréttir af samningnum, upplýsingar um aðild Íslands að honum og um Þingvelli og Surtsey, en það eru þeir staðir á Íslandi sem eru á heimsminjaskrá UNESCO.

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra benti í ávarpi sínu á nauðsyn þess að gefa Íslendingum kost á því að kynna sér málefni heimsminja frá íslensku sjónarhorni þar sem starf tengt heimsminjamálum hefur mikla þýðingu fyrir Ísland - bæði heima og á alþjóðavísu og nokkuð hefði borið á skorti á gagnlegum upplýsingum um þetta málefni. Í máli Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra kom m.a. fram að samstarf umhverfisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis við undirbúning aðildar og framkvæmd samningsins hefði verið til fyrirmyndar.

Nú er í undirbúningi alþjóðleg tilnefning víkingaminjastaða sem Ísland er í forsvari fyrir. Einnig er unnið að gerð nýrrar skrár yfir þá staði sem Ísland gæti hugsanlega tilnefnt á næstu árum, m.a. Vatnajökulsþjóðgarð sem náttúruminjar og íslenskar torfbyggingar sem menningarminjar.

(Frétt birtist á heimasíðu Mennta- og menningarmálaráðuneytis, 10.12.2010)

Síðast uppfært (Mánudagur, 28. febrúar 2011 10:10)

 

Ný heimasíða opnuð

Fimmtudaginn 9. desember kl. 11 verður ný heimasíða um heimsminjasamning UNESCO opnuð í mennta- og menningarmálaráðuneytinu af Katrínu Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra. Heimsminjasamningurinn miðar að því að vernda bæði menningarminjar og náttúruminjar sem eru einstakar í heiminum. Á heimasíðunni má finna upplýsingar og fréttir um heimsminjasamninginn, aðild Íslands að honum og vinnu hér á landi í því sambandi. Meðal þess eru upplýsingar um hvernig unnið er að tilnefningu staða á heimsminjaskrána og hvaða kröfur eru gerðar til gagna. Einnig má finna fundargerðir heimsminjanefndar Íslands, upplýsingar um Þingvelli og Surtsey en það eru íslensku staðirnir á heimsminjaskránni og margt fleira.

 

Skipun heimsminjanefndar Íslands 2009 - 2013

28.8.2009

Menntamálaráðherra hefur skipað heimsminjanefnd til næstu fjögurra ára. Nefndin er þannig skipuð:

  • Margrét Hallgrímsdóttir, forstöðumaður Þjóðminjasafns Íslands, formaður,

  • Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins,

  • Lovísa Ásbjörnsdóttir, jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, tilnefnd af umhverfisráðuneyti,

  • Ragnheiður H. Þórarinsdóttir, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneyti,

  • Sigurður Á. Þráinsson, sérfræðingur í umhverfisráðuneyti, tilnefndur af umhverfisráðuneyti.

Hlutverk nefndarinnar er að fylgja eftir heimsminjasamningi UNESCO fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Í því felst m.a. að gera tillögur til ríkisstjórnar um íslenska staði sem ættu heima á heimsminjaskrá UNESCO um menningar- og náttúruarfleifð heims og undirbúa tilnefningar íslenskra staða á heimsminjaskrána. Tveir íslenskir staðir eru nú á heimsminjaskrá UNESCO: Þingvellir og Surtsey.

(Fréttin birtist á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis 28.8.2009)

 
Fleiri greinar...