Þingvellir
Umsóknin um Þingvelli á heimsminjaskrá var lögð fram í febrúar 2003 og var hún samþykkt á fundi heimsminjanefndar UNESCO á fundi hennar í Suzhou í Kína í júlí 2004.
Á Þingvöllum var allsherjarþing Íslendinga komið á fót árið 930 og kom þingið þar saman allt til 1778. Þing stóð yfir í tvær vikur í senn og á þeim tíma settu þingmenn lög, miðluðu málum og kváðu upp dóma. Þingvellir hafa djúpstæða sögulega og táknræna merkingu fyrir íslensku þjóðina.
Í samráðsnefnd um skráningu á heimsminjaskrá voru Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Árni Bragason, sviðsstjóri í Umhverfisstofnun, Sigurður Ármann Þráinsson, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu og Þorgeir Ólafsson, deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu. Í verkefnisstjórn um tilnefningu Þingvalla sátu Þorgeir Ólafsson formaður, Margrét Hallgrímsdóttir, Sigurður Oddsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, og Sólrún Jensdóttir, menntamálaráðuneytinu. Verkefnisstjóri og ritstjóri umsóknar var Halldóra Hreggviðsdóttir, jarð- og verkfræðingur hjá fyrirtækinu Alta. Auk þess komu fjölmargir sérfræðingar á ýmsum sviðum að umsókninni. Umsóknina í heild sinni má nálgast hér: Umsókn Þingvalla v/heimsminjaskrár.
Í framhaldi af umsókninni samþykkkti Þingvallanefnd hinn 2. júní 2004 stefnumörkun næstu 20 ára fyrir þjóðgarðinn og einnig verkefnaáætlun. Verkefnisstjóri í vinnu vegna stefnumörkunnar var Guðrún St. Kristinsdóttir.
Á svæðinu sem samþykkt var á heimsminjaskrána er þjóðgarðurinn, tóftir þingbúðanna ásamt 10. aldar minjum sem talið er að finna megi undir sverði. Á svæðinu má einnig finna minja hefðbundins landbúnaðar frá 18. og 19. öld. Því má segja að þjóðgarðurinn beri merki þess hvernig maðurinn hefur nýtt svæðið í 1000 ár.
Nánari upplýsingar um Þingvelli má finna á heimasíðu þjóðgarðsins á Þingvöllum: http://www.thingvellir.is/