first
  
last
 
 
start
stop
UNESCO
UNESCO

Surtsey

Umsóknin um Surtsey á heimsminjaskrá var lögð fram í febrúar 2007 og var hún samþykkt á fundi heimsminjanefndar UNESCO á fundi hennar í Quebec í Kanada í júlí 2008.

Surtsey er útvörður Íslands í suðri og ein af úteyjum Vestmannaeyja. Surtsey myndaðist í neðansjá vareldgosi í nóvember árið 1963, en gosinu lauk 5. júní 1967. Auk Surtseyjar mynduðust eyjarnar Surtla, Syrtlingur og Jólnir, en eldvirkni í þeim stóð stutt og þegar henni lauk hurfu þær fljótt af yfirborði sjávar, en ummerki þeirra sjást enn neðansjávar.

Surtseyjareldar er lengsta og best þekkta eldgos í sögu Íslandsbyggðar, þar sem fylgst var náið með gangi eldgossins frá upphafi.

Surtsey var friðlýst árið 1965 meðan gosvirkni var enn í gangi og var friðlýsingin bundin við eldfjallið ofansjávar. Með friðlýsingunni var umferð manna út í eyna bönnuð og gildir það enn þann dag í dag, nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Takmörkun á ferðum manna út í eyna er fyrst og fremst til þess að forðast aðflutning lífvera og vernda viðkvæma náttúru Surtseyjar.

Í tengslum við tilnefningu Surtseyjar á heimsminjaskrána, var friðlandið stækkað verulega og í dag nær friðlýsingin yfir alla eldstöðina Surtsey, ásamt hafsvæðinu og botninum umhverfis, samtals 65 ferkílómetra.

Surtsey hefur frá upphafi verið sem náttúruleg rannsóknarstofa í jarðfræði og líffræði og mun verða það áfram. Með Surtsey gafst tækifæri til þess að fylgjast með neðansjávargosi og hvernig úthafseyjar myndast og þróast.

Frá árinu 1965 hefur Surtseyjarfélagið séð um að samræma og efla rannsóknir í Surtsey og hefur félagið m.a. staðið fyrir bættri aðstöðu vísindamanna úti í Surtsey. Vísindamenn frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Hafrannsóknastofnun og Háskóla Íslands, auk fjölda annarra innlendra og erlendra vísindamanna, hafa stundað margvíslegar rannsóknir og vöktun í Surtsey frá upphafi. Þessar rannsóknir hafa haft mikla þýðingu fyrir náttúruvísindin og út frá þeim er hægt að rekja jarðsögu eyjarinnar, tímasetja landnám lífvera og breytingar í lífríki frá upphafi. 

Náttúrufræðistofnun Íslands vann skýrslu um Surtsey vegna tilnefningar hennar á heimsminjaskrá að beiðni heimsminjanefndar Íslands árin 2006-2007. Fjöldi vísindamanna og sérfræðinga komu að gerð hennar, en verkefnis- og ritstjórar umsóknar voru Álfheiður Ingadóttir og Snorri Baldursson.

Surtsey er einstakur staður náttúruminja á grundvelli mikilvægi rannsókna og vöktunar á landnámi dýra og plantna ásamt þróun eyjarinnar og framvindu lífríkis, án afskipta eða áhrifa mannsins.

Sú framsýni að friða Surtsey árið 1965, ásamt rannsóknum vísindamanna á lífríki og jarðfræði eyjarinnar, á stóran þátt í því að Surtsey er á heimsminjaskrá UNESCO.

Hér má nálgast tilnefningarskjalið fyrir Surtsey.

Nánari upplýsingar um Surtsey má finna á heimasíðu Surtseyjarfélagsins: http://www.surtsey.is/

Aðrir tenglar:

Umhverfisstofnun: www.ust.is/surtsey

Náttúrufræðistofnun Íslands: www.ni.is/surtsey

Heimaslóð, vefur um Vestmannaeyjar: http://heimaslod.is/index.php/Surtsey

Heimasíða heimsminja UNESCO: http://whc.unesco.org/en/list/1267