Raðtilnefningar víkingaminja
Ísland er í forystu fyrir alþjóðlegri raðtilnefningu á minjum frá víkingatímanum í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 10. ágúst 2007. Unnið er að því að setja staði sem tengjast menningu víkinga á heimsminjaskrá UNESCO í samstarfi við Danmörku, Lettland, Noreg og Slésvík-Holtsetaland. Í þessari raðtilnefningu munu vera staðir sem þegar eru fyrir á skránni, s.s. Þingvellir og grafhaugarnir og kirkjan í Jelling í Danmörku auk nokkurra nýrra staða sem þjóðirnar leggja til, alls átta staðir.
Hvert þátttökuríki undirbýr sinn þátt í raðtilnefningunni og á Íslandi hefur verið haft samráð við starfsmenn Þingvallaþjóðgarðs í aðdraganda verkefnisins. Nauðsynlegt er að hafa náið samstarf við Þingvallanefnd vegna þessa verkefnis.
Þetta er flókið og mikilvægt verkefni sem nýtur athygli á alþjóðavísu enda er hér um nýja nálgun við heimsminjasamninginn að ræða. Minjastofnun Íslands heldur utan um alþjóðlega hluta verkefnisins. Agnes Stefánsdóttir sérfræðingur er verkefnastjóri. Verkefninu er stjórnað af alþjóðlegri verkefnisstjórn sem skipuð er fulltrúum þátttökuríkjanna. Formaður verkefnisstjórnarinnar er Ragnheiður H. Þórarinsdóttir sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneyti.
Stefnt er að því að afhenda heimsminjaskrifstofu UNESCO í París tilnefningaskjalið fyrir 1. febrúar 2014. Eftir það tekur við langt matsferli. Umsóknin verður væntanlega tekin til umfjöllunar í heimsminjanefnd UNESCO sumarið 2015.